miðvikudagur, mars 28, 2007

INNANLANDSLUG= HROTTALEGUR-ÓGEÐIS-HRYLLINGS-VIÐBJÓÐUR.

Á föstudaginn seinasta var komið að því eftir eina og hálfa viku á Íslandi að koma sér aftur tilbaka til Danmerkur. Ég vaknaði eftir næstum svefnlausa nótt klukkan hálf átta um morguninn. Ég var ekki hress. Ég vissi alveg að þetta yrði slæmur dagur! Pabbi tók það að sér að koma mér upp í Egilsstaði þar sem ég átti að mæta mínum helsta ótta. INNANLANDSFLUGI. Það er það versta sem ég lendi í. En ég ákvað að reyna að anda rólega því það gerir bara illt verra að hugsa of mikið um það að vera að fara í flug.

Við vorum svo komin upp í Egilsstaði rétt fyrir 9, en átti flug 25 mínútur yfir 9. En maðurinn í innrituninni sagði mér að ég yrði bara að bíða vegna þess að það væri ekki flogið alveg strax. Ég leit út...það var sól og blíða. Fannst það heldur undarlegt. En hann sagði mér að það væri vegna þess að það væri svo mikill vindur í háloftunum. Ég hugsaði með mér: ,,Fjandinn sjálfur!! Er það líka til. Fráááábært.” En ég ákvað að taka það rólega. Fékk samt smá kvíðakast vegna þess að ég átti flug frá Keflavík kl 14:15. Það var að verða frekar tæpt. Svo þegar pabbi var nýfarin fékk ég að vita að það yrði ekki flogið fyrr en um kl tvö frá Egilsstöðum. Það var greinilega ekki að fara að gerast að ég yrði um borð í þessari vél sem ég átti að ná. Við vorum margir Fáskrúðsfirðingar þarna saman sem biðum þannig að þetta var svosem ekki svo slæmt að vera fastur í smástund..mér finnst hvort eð er allt betra en að vera í flugvél. Það er samt ekki gott fyrir mig að þurfa að bíða eftir flugi á flugvellinum því þá byggist upp spenna sem býr til svona all svakalegan kvíðahnút í magann á mér sem meira segja nær að láta mig fá illt í rifbeinin.

Svo kom ,,loksins” að því að ég var komin útí vél. Ég hugsaði bara með mér að ég yrði að halda mér rólegri og ekki fá eitthvað fáránlegt taugaveiklunar- geðveikiskast. Mér tókst að halda mér rólegri þangað til ég var komin í sætið mitt. Þá byrjaði ég að fá svona hita og kuldaköst til skiptis. Ég svitnaði svona köldum svita inn í lófunum. Eina sem ég hugsaði var..greyið maðurinn sem situr við hliðina á mér! Hann veit ekki á hverju hann á von. Svo er það að sjálfsögðu ekki að gera sig þegar er spiluð svona jarðarfararleg tónlist meðan maður er að koma sér í sætið sitt. Nei, klárlega ekki að gera sig! Þeir komu svo rellunni út á flugbrautina eftir að fólkið var komið í sætin og stoppuðu þar. OHHHH hvað ég hata þetta smá stopp rétt fyrir flugtak. Enn betra þegar flugstjórinn býður okkur góðan daginn og segir svo..,,já það er víst all svaðalegur háloftavindur svo það má búast við mikilli ókyrrð á leiðinni!” Ertu að fokkings grínast????

En svo var komið að flugtaki. Það er pottþétt í uppáhaldi hjá mér. Ég bara elska þegar þeir gefa svona í og rétt drullast upp í loft hoppandi og skoppandi eins og það sé ekkert í heiminum meira skemmtilegt. Já ég elska það svo mikið að ég ýtti mér eins fast og neðarlega í sætið og ég gat, spyrnti svo fast í sætið fyrir framan að ég fékk marbletti á hnén og maðurinn fyrir framan mig skildi líklega ekkert af hverju hann borgaði jafnmikið og aðrir fyrir sæti með helmingi minna fótaplássi. Ég klemmdi eyrun saman með höndunum eins fast og ég gat og lokaði augunum. Ég reyndi að anda eðlilega en allt kom fyrir ekki..oföndun var næsta víst. Ég skalf og nötraði eins og hrísla í vel hraustlegum norðanvindi á öræfum og grét eins og ég ætti lífið að leysa. Maðurinn við hliðina á mér hélt líklega að ég hafi bara rétt aðeins fengið að skreppa heim að heimsækja foreldra mína en nú hafi ég auðvitað verið á leiðinni aftur inn á Klepp þar sem ég ætti greinilega heima. Hann reyndi að stappa í mig stálinu með því að segja: ,,Veistu að það er miklu öruggara að fljúga heldur en að keyra bíl? Þetta verður sko allt í lagi!” Vá, sætt af honum en virkar ekki rassgat á snar taugaveiklaða manneskju.

Svo var komið að því að biðja. Ég er alls ekki trúuð manneskja en í flugi fer ég alltaf með Faðir Vorið..jafnvel á spænsku líka! Þegar ég var svo orðin mjög þreytt á að klemma eyrun saman þá tróð ég fingrunum svo fast inn í eyrun að það var eins og ég hafi haldið að þar væri falin fjársjóður. Þegar þessi bévítans rella var svo loksins komin í tilætlaða flughæð, rétti sig af og slökkt var á sætisbeltaljósunum þá gat ég loksins farið að róa mig aðeins. Allavega nóg til að geta fengið þurrku hjá flugfreyjunni til að þurrka framan úr mér, það er ekki heillandi að vera með maskara niður á kinnar og hor útum allt andlit.

Mér finnst endalaust frábært þegar er svo aftur kveikt á sætisbeltaljósunum og flugstjórinn segir að nú sé að koma að ókyrrðarkafla. Má ekki bara leyfa þessum fæðingarhálfvitum að reka hausinn í sem dettur í hug að fara úr beltinu í staðinn fyrir að vera hræða líftóruna úr þeim sem hafa vit á að sitja í sætum sínum og biðja fyrir lífi sínu? En svo fann ég fyrir svo miklum létti þegar ég fann að flugvélin var farin að lækka flugið. En það tók samt við annað taugaveiklunar-geðveikiskast þrátt fyrir það, samt ekki jafn slæmt og við flugtak. Þegar ég var loksins komin niður á jörðina langaði mig að hlæja af gleði og kyssa malbikið þegar ég var komin út. En ég vildi nú ekki alveg fullvissa fólk um að ég sé nú ekki alveg heil. Það er nóg að þau séu í miklum vafa um geðheilsu mína eftir flugferð með mér.

Já svona eru flestar flugferðir fyrir mig. En ég held samt alltaf áfram að fljúga einfaldlega vegna þess að ég elska að ferðast. Hef samt virkilega hugleitt að fara á flughræðslu námskeið, fékk númerið hjá flugfreyju í einni af mínum skemmtilegu flugferðum...en það er eins gott að það sé eitthvað í það varið því það þýðir sko ekkert að reyna að skella bara einhverri tölfræði og staðreyndum á mig takk fyrir!

Ef einhver kemst alla leið hingað..þá væri frábært að fá komment;)

-Eydís taugahrúga.

11 ummæli:

Ási sagði...

Litla krúttið mitt. þú náttúrulega verður að skrá þig á þetta námskeið, annað gengur nátt ekki...

Nafnlaus sagði...

...eða bara vera heima hjá þér...

Nafnlaus sagði...

Thu verdur an efa ad skra thig a eitt stykki flughraedlsunamskeid, eda bara fara ad laera flug, eda kaupa ther kafbat;) hehehe

Mademoiselle Eydís sagði...

kafbátur er klárlega málid!! afhverju datt mér thad ekki fyrr í hug??:)

Ási sagði...

Gott þú hefur vinkonur til að benda á svona möguleika, kafbátur Im in...

Regína sagði...

Tetta hljomar agalega spennandi, eg held ad tu verdir ad taka norrænu heim ;)

Nafnlaus sagði...

"Fear avail stimulate the future, weep avail stimulate the pasta.. "

(tried to translate you blog, but guess icelandic is better after all!)

http://www.tranexp.com:2000/InterTran?type=url&url=http%3A%2F%2Fmrswish.blogspot.com%2F&text=&from=ice&to=eng

-Jarle

Nafnlaus sagði...

Ohh hvað ég finn alltaf til með þér.
Vissi reyndar ekki að þú hafðir farið til íslands. Vona að þú hafir haft það gott á fróni. Var það alltaf ákveðið að þú færir heim?

Nafnlaus sagði...

gott blogg hja þer kv storasystir

Nafnlaus sagði...

það tokst hja mer elska þig storasystir

Nafnlaus sagði...

það tokst hja mer elska þig storasystir